Skoðun

Spilling og van­hæfni í ís­lenskri pólitík

Sunna Arnardóttir skrifar

Hvort skyldi vera verra? Stjórnmál sem einkennast af spillingu? Eða stjórnmál sem einkennast af vanhæfni til að sinna sinni pólitískri skyldu?

Er mögulega tenging þarna á milli?

Það fyndna er, já, spilling og vanhæfni haldast í hendur.

Byrjum á að skilgreina þessi orð:

Spilling – Óheiðarleg hegðun eða refsiverð brot framin af einstaklingi, hópi einstaklinga eða stofnunar sem nýtir vald sitt til að afla sér ólöglegs ávinnings eða misnotar valdið í eigin þágu.

Vanhæfni – Skortur á getu eða færni til þess að geta með góðum árangri sinnt skyldum sínum sem skyldi.

Dæmi af vinnumarkaði til útskýringa

Ef atvinnurekandi hefur gífurlegt magn af vanhæfum stjórnendum, þá er um að ræða atvinnurekanda sem ræður inn vini, vandamenn og jáfólk. Einkennist vinnustaðurinn þá af stjórnendum sem leyfa sér misnotkun á valdi sínu og sem setur eignarhald á auðlindir og afurðir atvinnurekanda þvert á þarfir rekstrarins.

Atvinnurekandi sem er rekinn af spillingu, hefur stjórnendur sem eru svo uppteknir við að koma sér sjálfum áfram, hampa sér og fylla eigin vasa að það fer að sjá á rekstri atvinnurekanda. Augljós merki eru erfiður rekstur, skortur á tæki og tólum til almenns starfsfólks, og mannekla vegna peningaskorts í rekstri til að réttilega greiða starfsfólki laun og launatengd gjöld.

Atvinnurekandinn sem er jafnframt rekinn af vanhæfni, þ.e. stjórnendur eru ekki ráðnir inn vegna hæfni sinnar til þess að efla og upphefja vinnustaðinn, heldur vegna vinatengsla er í grunninn einnig rekinn af spillingu þar sem hagkvæmni rekstrar er ekki í fyrirrúmi við ráðningar heldur eigin hagsmunir og vinatengsl. Augljós merki eru erfiðleikar í samskiptum milli stjórnenda og almenns starfsfólks, augljós stéttarskipting er á vinnustaðnum, og starfsfólk ræðir mikið vanhugsaðar eða erfiðar ákvarðanir sem stjórnendur skipa fyrir að fylgt sé sem starfsfólk sér fram á að muni skapa erfiðleika í rekstrinum síðar meir.

Spilling og vanhæfni eru það algeng á vinnumarkaði hér á Íslandi, að mörg hver af okkur teljum við það vera „normið“ á vinnumarkaðinum.

Færum dæmið yfir á stjórnmálin

Augljóst þykir að stjórnmál eru í eðli sínu atvinnurekandi sem skiptist í stjórnendur og almennt starfsfólk. Stjórnmálafólk er samkvæmt skilgreiningu stjórnendur stofnana, sveitarfélaga og þjóðarinnar allrar, og almennt starfsfólk eru svo þeir aðilar sem starfa innan þeirra stofnana, sveitarfélaga og á Alþingi.

Þjóðin eru á pappír stjórnarmeðlimir þessa atvinnurekanda.

Hjá flestum atvinnurekendum er það svo að stjórnin setur saman stefnur og gerir kröfur varðandi rekstur atvinnurekanda, en því miður er það ekki svo í stjórnmálum. Völd þjóðarinnar gagnvart stjórnmálafólki er eingöngu á pappír, líkt og síðustu mánuðir (og ár) hafa svo skýrt gefið til kynna.

Við vitum öll hvernig stjórnmál eru á Íslandi, og skipting alls valds hefur verið innihald í reiðilestrum íslendinga í mörg ár. Orðin „vanhæfni“ og „spilling“ eru svo samofin stjórmálaumræðu á Íslandi að það er óþarfi að rekja frekar hvað hefur verið í gangi og útskýra af hverju það er svo rangt.

En hvernig skyldu stjórnmál á Íslandi vera ef engin spilling og vanhæfni væri þar að finna? Ræðum hvernig íslensk stjórnmál ættu að vera!

Ísland, rekið áfram af hæfni og þekkingu

Ímyndið ykkur Ísland, þar sem ráðherrar okkar eru sérfræðingar og reynsluboltar af sínu sviði. Sjáið fyrir ykkur menntakerfið okkar með menntamálaráðherra (sem heitir núna mennta- og barnamálaráðherra þar sem menntamál og börn eru jú með samnefnara) sem hefur gífurlega þekkingu af skólakerfi landsins og innviðum þess.

Ímyndið ykkur ef þessi ráðherra væri umvafinn sérfræðingum af ýmsum sviðum skólakerfisins, og að saman hefði þessi hópur það eina markmið og þá ástríðu að sjá menntakerfi okkar styrkjast og eflast með ári hverju þar til Ísland yrði þekkt fyrir að vera fremst í flokki í menntamálum?

Ímyndið ykkur enn frekar ef barnamálaráðherra væri einstaklingur sem þekkti vel til réttinda barna og málefna þeirra á Íslandi. Einstaklingur sem berðist fyrir bættum kjörum og aðstæðum barna á öllum stigum og sviðum samfélagsins, og ynni með viðeigandi ráðherrum til þess (t.d. menntamálaráðherra er kemur að yngri skólastigum). Einstaklingur sem gæti tekið málaflokkinn og helgað sér þeirri vinnu, en væri ekki að dúllast á mörgum sviðum því „það er ódýrara, og þannig getum við takmarkað hversu margir fái flotta titla“.

Ímyndið ykkur fjármálaráðuneyti þar sem fjármál þjóðarinnar væru tekin sem ákvörðun af einstaklingum með þekkingu og reynslu af sviðinu, sem hefðu eingöngu hagsmuni þjóðarinnar til hliðsjónar en ekki „pabba langar í banka“.

Ímyndið ykkur heilbrigðisráðherra sem þekkti innviði heilbrigðiskerfis okkar vel af eigin raun, að allt starfsfólk ráðuneytisins væri af heilbrigðissviðinu, sem allt ynni með þá hugsjón að heilbrigðiskerfið sé einn af okkar sterkustu hornsteinum sem efla þarf og styrkja, en ekki meitla niður með von um að geta selt seinna meir því mögulega langar pabba í landspítala líka.

Ísland, án spillingar

Því miður er staðreyndin sú að þar sem völd eru, þar verður alltaf spilling. Spillingu er að finna alls staðar, í öllum hópum. Við höfum tekið dæmi af spillingu á vinnumarkaði, rætt spillingu í stjórnmálum, en spillingu er líka að finna meðal fjölskyldumeðlima og innan vinahópa. Þar sem hægt er að hafa einhver völd, sama hversu smávægileg þau völd eru, þar mun spilling finnast. Því miður er ekki hægt að breyta þessu.

En það er hægt að breyta því hvernig við tæklum spillingu!

Mikilvægt er fyrir okkur að vera hörð á því að einstaklingar sem gerast sekir um spillingu séu persónulega teknir fyrir. Ekki stöðugildi þeirra, ekki ráðuneytið þeirra, ekki atvinnurekandinn, heldur einstaklingurinn sjálfur.

Ef spilling er ekki lengur æskileg vegna neikvæðra afleiðinga, þá mun spillingarhegðun minnka.

Drögum einstaklinga til ábyrgðar, og gerum það utan stjórnmála þannig að stjórnmálafólk sem gerist sekt um spillingu er lagalega skylt að svara fyrir gjörðir sínar í dómstólum (sem í fullkomnum heimi starfa utan stjórnmála, en hey, litla Ísland).

Munum við sjá breytingu í íslenskum stjórnmálum

Haha. Nei! Láttu ekki svona!

Ef eitthvað á að breytast þá þýðir það að við höfum stjórnmálafólk sem tekur ákvarðanir með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki eigin hagsmuni. Heldurðu virkilega að það muni gerast?

Til þess að eitthvað breytist, þá þarf hópur af fólki sem lifir við mikil forréttindi, hefur mikil völd, fær tekjur af „valdastöðu og ákvörðunum sínum“ (sem það ber ekki ábyrgð á) og tæki ákvörðun um það að færa völdin yfir á einstaklinga ótengdum stjórnmálafólkinu sem myndi færa allt peningastreymið yfir á þjóðina!

Því miður er staðreyndin sú að einstaklingar eru mjög tregir við að gefa upp völd og aðgengi að fjármunum. Í fullri hreinskilni; ef þú hefðir gífurleg völd og mikið peningaflæði til þín og þinna vina, myndir þú taka þá ákvörðun að taka þessi forréttindi af þér og gefa annað?

Staðreyndin er því miður sú, að aðstæðurnar munu ekki lagast ef þjóðin tekur ekki málin í sínar eigin hendur. Sitthvað sem mun seint gerast, þar sem baráttuafl okkar er því miður eingöngu í orði en ekki á borði. Þjóðin er fær um að kvarta á samfélagsmiðlum, senda reiðiskoðana-pósta á visir.is, og tala sín á milli í hvössum tóni. En situr svo sallaróleg og bíður eftir því að einhver annar lagi aðstæðurnar.

Þjóðin hefur samt sýnt að við getum verið samheldin og tekið höndum saman í baráttunni um réttindi okkar og bættar aðstæður, líkt og kom fram 24. Október 2023.

Við getum þetta alveg. Við bara, gerum það ekki, einhverja hluta vegna.

Vonandi mun pabbi ættleiða snöggvast alla þjóðina og erfðalögin taki við og geri réttilega sitt svo eitthvað jákvætt komi útúr þessu.

Krossum fingur.

Höfundur er þreyttur Íslendingur sem hefur miklar áhyggjur af síversnandi ástandi í stjórnmálum landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×