Sport

Sá markahæsti dæmdur í sex mánaða bann klukku­tíma fyrir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valeri Nichushkin er góður leikmaður en glímir við einhverja djöfla utan vallar.
Valeri Nichushkin er góður leikmaður en glímir við einhverja djöfla utan vallar. Getty/Jonathan Kozub

Leikmenn og þjálfarar NHL-liðsins Colorado Avalanche fengu að vita það klukkutíma fyrir leik í úrslitakeppninni um Stanley bikarinn að markahæsti leikmaður liðsins og í raun allrar úrslitakeppninnar yrði ekki með liðinu. Ekki bara í leik gærkvöldsins heldur öllum leikjum liðsins næsta hálfa árið.

Rússneski íshokkímaðurinn Valeri Nichushkin hafði verið dæmdur í hálfs árs bann. Bandarískir fjölmiðlar segja frá banninu en ekki frá ástæðunum af hverju leikmaðurinn er kominn í þetta langa bann.

Colorado Avalanche er í undanúrslitum Vesturdeildarinnar á móti Dallas Stars og hefur nú tapað þremur leikjum í röð eftir að hafa unnið fyrsta leik einvígsins.

Nichushkin er markhæsti leikmaður allrar úrslitakeppninnar með níu mörk í átta leikjum. Liðið saknaði hans í líka í leiknum sem tapaðist 5-1.

Leikmenn Avalanche fréttu bara af banni hans um leið og þeir mættu til leiks því Nichushkin var með þeim á morgunæfingunni.

Nichushkin verður launalaus þessa sex mánuði sem hann er í banni.

Það fylgir þessum fréttum að Nichushkin er kominn á þriðja stig stuðningsmeðferðar leikmannasamtakanna.

Það að hann sé kominn á þriðja stigið þýðir að leikmaðurinn hefur brotið reglurnar á síðustu tveimur mánuðum.

Hinn 29 ára gamli Nichushkin var nefnilega líka frá keppni um miðjan janúar þegar hann var líka tekinn inn í umrædda stuðningsmeðferð. Hann var frá keppni fram í lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×