Fótbolti

Birkir skoraði fyrir Brescia

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason skoraði sitt fimmta mark fyrir Brescia í ítölsku b-deildinni í vetur.
Birkir Bjarnason skoraði sitt fimmta mark fyrir Brescia í ítölsku b-deildinni í vetur. Getty

Birkir Bjarnason var á skotskónum í dag þegar lið hans Brescia vann 4-1 heimasigur á Lecco í ítölsku B-deildinni.

Birkir kom Brescia í 1-0 strax á 12. mínútu leiksins og fjórum mínútum síðar hafði Gabriele Moncini komið liðinu í 2-0. Moncini bætti síðan við öðru marki sínu á 52. mínútu.

Fjórða markið skoraði síðan Flavio Bianchi sextán mínútum fyrir leikslok. Lecco náði að minnka muninn undir lok leiksins.

Birkir var þarna að skora sitt fimmta deildarmark á leiktíðinni en hann hafði aftur á móti ekki skorað síðan á Þorláksmessu.

Þetta var fyrsti sigur Brescia síðan í byrjun apríl eftir fjóra leiki í röð án sigurs. Liðið er í áttunda sæti sem skilar liðinu þátttökurétti í úrslitakeppninni.

Bjarki Steinn Bjarkason spilaði fyrstu sextíu mínútur leiksins í 2-1 sigri Venezia á FeralpiSalo en hann var tekinn af velli strax eftir fyrsta markið. Venezia skoraði sigurmarkið í uppbótatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×