Íslenski boltinn

„Ég er spennt að fara heim að sofa“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Anítu Dögg gafst ekki langur tími til hvíldar eftir komuna frá Bandaríkjunum í nótt.
Anítu Dögg gafst ekki langur tími til hvíldar eftir komuna frá Bandaríkjunum í nótt. vísir / anton brink

Aníta Dögg Guðmundsdóttir kom með beinu næturflugi frá Bandaríkjunum í nótt, lagði sig í nokkra tíma og hélt svo markinu hreinu í 3-0 sigri Breiðabliks gegn FH í kvöld. 

„Ég fór að sofa þegar ég kom heim. Vaknaði svo og hugsaði þetta er ekki að fara að gerast, en sem betur fer bara náði ég að borða og koma mér í gang.“

Aníta leikur í háskólaboltanum í Bandaríkjum með Western Carolina University. 

Hún átti að koma heim næsta mánudag og verma varamannabekk Breiðabliks í sumar en aðalmarkvörður liðsins, Telma Ívarsdóttir, nefbrotnaði í síðasta leik og því ákveðið að flýta heimferðinni. 

„Ég átti að koma á mánudaginn en því var breytt til að ég gæti náð leiknum í dag.“

Það var ekki langur fyrirvari og allt stefndi í að Rakel Hönnudóttir, útileikmaður, myndi verja mark Breiðabliks, en Aníta komst til landsins rétt í tæka tíð. 

„[Lenti] klukkan sex. Ég er spennt að fara heim að sofa.“

Það var ekki að sjá neina flugþreytu hjá henni, hélt markinu hreinu og átti frábæra vörslu í fyrri hálfleik sem kom í veg fyrir að FH tæki forystuna. 

„Takk fyrir og jú, bara mjög gaman. Breiðablik er geggjað lið, gaman að sjá þær spila og vera partur af þessum sigri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×