Körfubolti

Jaka á­fram í Kefla­vík næstu þrjú árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaka Brodnik (númer 5) fagnar bikarmeistaratitlinum með félögum sínum í Keflavíkurliðinu.
Jaka Brodnik (númer 5) fagnar bikarmeistaratitlinum með félögum sínum í Keflavíkurliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar hafa framlengt samning sinn við Jaka Brodnik og verður hann leikmaður liðsins næstu þrjú árin.

Jaka hefur spilað vel fyrir Keflavíkurliðið í Subway deildinni í vetur en liðið varð bikarmeistari og er í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

Á Íslandsmótinu í vetur er Jaka með 14,7 stig og 5,0 fráköst að meðaltali í leik. Jaka er á sínu þriðja tímabili með Keflavík og hefur komið sterkur til baka eftir dapurt 2022-23 tímabil þar sem hann var aðeins með 7,8 stig og 2,7 fráköst í leik. Hann skoraði 15,1 stig að meðaltali í leik á fyrsta tímabilinu með Keflavík.

Jaka hefur spilað í sex tímabil á Íslandi en hann kom fyrst til Þórs í Þorlákshöfn í eitt tímabil og var svo í tvö tímabil hjá Tindastól.

„Keflavík fagnar þessum tímamótum og þessu áframhaldandi samstarfi við eðalmann og eðalleikmann,“ segir í frétt á miðlum Keflavíkur og þar er einnig stutt viðtal við leikmanninn.

„Það er mér og minni fjölskyldu mikil ánægja að vera búinn að skrifa undir. Okkur líður afar vel hér í Keflavík, umgjörð eins og hún gerist best og þetta er okkar heimili. Ég hlakka til að taka slaginn áfram með Sunny Kef, það eru spennandi tímar framundan. Við ætlum okkur alla leið í keppninni sem nú er í gangi og næstu ár verða afar áhugaverð,“ sagði Jaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×