Innlent

Bakarí og veitinga­staður opna í Grinda­vík á ný

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hérastubbur opnaði dyr sínar á ný í dag.
Hérastubbur opnaði dyr sínar á ný í dag. Vísir/Vilhelm

Veitingastaður og bakarí í Grindavík voru opnuð á ný í Grindavík í dag. Lögreglustjórinn telur viðbragðsaðila hafa ágætis tíma til að rýma bæinn komi til nýs eldgoss á svæðinu. 

Þrátt fyrir óvissu um nýtt eldgos á Reykjanesskaga opnaði bakarí Hérastubbs bakara í Grindavík dyr sínar á ný í morgun. Eigendur veitingastaðarins Papa's Pizza í Grindavík stefna á slíkt hið sama og verður fyrsta opnunin þar í langan tíma í dag.

Hægt verður að fá sér pizzu á Papa's Pizza í dag.Grindavíkurbær

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir að þrátt fyrir að hann mæli ekki með því að vera í bænum telji viðbragðsaðilar sig fá ágætis tíma til að rýma bæinn verði vendingar við gosstöðvarnar norðan við Grindavík. Vísbendingar eru um að það gæti dregið til tíðinda þar á næstunni.

„Það er hætta á hraunflæði samkvæmt uppfærðu hættumatskorti Veðurstofunnar. En við teljum okkar hafa mjög góðan og rúman tíma ef að við fáum nýtt gos ofan í það sem nú er. Þá teljum við okkur hafa ágætis svigrúm til þess að rýma bæinn. Þetta er auðvitað fjöldi sem dvelur í bænum yfir daginn en rýming bæjarins tæki skamman tíma,“ segir Úlfar.

Úlfar Lúðvíksson er lögreglustjóri á Suðurnesjum.Vísir/Einar

Gist er í um tuttugu húsum á hverri nóttu í bænum en á svæðinu eru einnig lögreglumenn, slökkviliðsmenn og fleiri viðbragðsaðilar. Um þrjú hundruð manns starfa í bænum á hverjum einasta degi.

„Það er búið að girða af hættuleg svæði inni í bænum. Og varnarorðin eru alltaf þau sömu, að fólk haldi sig við akbrautir og gangbrautir. En bærinn er ágætlega varinn hvað þetta varðar,“ segir Úlfar.

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi og enn er einhver smáskjálftavirkni á svæðinu sem er að aukast örlítið. Engar stórar breytingar hafa átt sér stað á svæðinu síðan í gær og enn mallar í gígnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×