Skoðun

Gummi Kalli, ein­lægur, skemmti­legur og frá­bær leið­togi

Arnar Ragnarsson skrifar

Íslenska þjóðkirkjan er heppin að geta teflt fram tveimur frábærum einstaklingum sem nú verður brátt kosið um hvor mun verða nýr biskup Íslands. Ég hef notið þeirrar gæfu að hafa fengið að vinna bæði með Guðrúnu og Gumma Kalla. Þau hafa bæði marga góða kosti sem geta nýst þeim vel í starfi sem biskup Íslands. Ef ég hefði hins vegar kosningarétt myndi mitt atkvæði hiklaust fara til Gumma Kalla. Ég kynntist Gumma Kalla fyrst í Vatnaskógi þar sem hann starfaði sem forstöðumaður. Þar fann ég strax hvað hann var góður stjórnandi af því að hann hlustaði alltaf á það sem við leiðtogarnir höfðum til málanna að leggja og ég fann það svo sterkt að hann var með okkur í liði. Ég fann líka hvað hann lagði sig mikið fram við að gera gott starf ennþá betra og hvað hann hafði mikinn eldmóð fyrir starfinu sem var mjög auðvelt að hrífast með. Seinna fékk ég að fylgjast með honum byggja upp frábært safnaðarstarf í Lindasókn. Starf sem hófst í litlum sumarbústað á lóðinni en er nú eitt blómlegasta og líflegasta safnaðarstarf landsins fyrir jafnt unga sem aldna. Það sem mér þykir vænst um í fari Gumma Kalla er hvað hann sýnir samferðafólki sínu einlægan áhuga. Hann gefur sér alltaf tíma fyrir náungann og mætir hverjum og einum á þeim stað sem hann er hverju sinni. Í mínum huga getur íslenska þjóðkirkjan snúið vörn í sókn og vaxið og dafnað vel undir stjórn Gumma Kalla.

Höfundur er flugmaður og íþróttafræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×