Fótbolti

Ísbjörninn fékk tíu marka skell í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísbjörninn spilaði í dag sinn fyrsta leik í Evrópukeppni innanhússfótbolta.
Ísbjörninn spilaði í dag sinn fyrsta leik í Evrópukeppni innanhússfótbolta. KSÍ

Íslandsmeistararnir í innanhússfótbolta fengu stóran skell í fyrsta leik sínum í í Evrópukeppni innanhússfótboltans, Futsal.

Ísbjörninn tapaði fyrsta leik sínum á mótinu með  tíu marka mun, 11-1, á móti FC Prishtina frá Kósóvó.

Hinn 32 ára gamli Orats Reta jafnaði metin í 1-1 á 9. mínútu, aðeins tólf sekúndum eftir að Prishtina komst í 1-0.

Eftir það var á brattann að sækja fyrir Ísbjarnarmenn. Prishtina skoraði alls fimm mörk fyrir hlé og var því 5-1 yfir í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum bætti Kósóvarnir við sex mörkum og unnu leikinn því með tíu marka mun.

Prishtina átti alls 33 skot í leiknum á móti átta skottilraunum hjá Ísbjarnarmönnum.

Ylli Mazreku skoraði þrennu fyrir Prishtina liðið í leiknum og þeir Ari Kaqandolli og Drilon Maxharraj voru með tvö mörk. Sjö leikmenn komust á blað hjá liðinu.

Riðillinn er spilaður í Póllandi og liðið er einnig í riðli með Utleira Idrettslag frá Noregi og KSC Lubawa frá Póllandi.

Þetta er í annað skiptið sem Ísbjörninn kemst í Evrópukeppni innanhússfótbolta en liðið er ríkjandi Íslandsmeistari og hefur unnið þann titil bæði árin 2022 og 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×