Innlent

Segir ríkið refsa vel reknum ríkisfyrirtækjum

Gísli S. Einarson, bæjarstjóri á Akranesi, segir ljóst að fái sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi ekki fjárframlög við afgreiðslu fjáraukalaga sé ríkisvaldið að refsa þeim ríkisfyrirtækjum sem standa sig vel í rekstri. Þetta kemur fram á fréttavefnum Skessuhorni.

Stjórnendur stofnunarinnar undirbúa mikinn niðurskurð á starfsemi hennar til þess að mæta hallarekstri að undanförnu sem meðal annars má rekja til hækkunar launa og lífeyrisskuldbindinga og fjölgunar aðgerða á stofnuninni. Bent er á að stofnunin hafi fengið hvatningarverðlaun fjármálaráðuneytisins í tengslum við útnefningu fyrirmyndarstofnunar í ríkisrekstri árið 2004.

Bæjarstjórinn segir með ólíkindum að stofnun sem notið hafi virðingar og verðlauna fyrir góðan rekstur þurfi að standa í slíku stappi og stjórnendur hennar þurfi að eyða tíma sínum í að skipuleggja niðurskurð á afar hagkvæmri starfsemi.

„Með slíku framferði er ríkisvaldið að refsa þeim sem standa sig vel. Slík stefna getur ekki verið uppi nú á tímum og því hlýtur málið að fá farsælan endi á Alþingi. Við munum vandlega fylgjast með því hvernig þessum málum lyktar á næstu dögum því starfsfólk vel rekinna stofnana á ekki að þurfa að vinna við aðstæður sem þessar." segir Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×